sunnudagur, 27. apríl 2014

Spínat, kjúklinga og ostafyllt cannelloni

Jæja þá er komið að fyrstu matarfærslunni. Ó það sem ég elska að dunda mér í eldhúsinu að elda eða baka alls kyns vandræði.

Ég fylgist alveg ótrúlega mikið með Evu Laufey á heimasíðunni sinni, svo var ég líka svo heppin að fá bókina hennar í afmælisgjöf frá vinkonum mínum, mér til rosalega mikillar gleði. 
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift sem er í miklu uppáhaldi. 

Spínat og ostafyllt cannelloni! mér fannst alveg tilvalið að bæta við kjúkling til viðbótar og það kom ótrúlega vel út. 

Fyrir ca 4.

Það sem þarf í þennan rétt er



10 pastarör (cannelloni)
500gr kotasæla
200gr ferskt spínat
1 msk olía
3 msk fersk basilíka, smátt söxuð
2 hvítlauksgeirar
4 msk rifinn parmesanostur
rifinn mozzarellaostur
salt og pipar
fyrirfram eldaðir kjúklingastrimlar

Sósan 

1 msk olía
2 hvítlauksrif
1 dós tómata-passata (ég notaði frá Sollu)
1/2 dós niðursoðnir tómatar
fersk basilíka
salt og pipar

Vá ég verð bara svöng á því að skrifa þetta niður..



Við byrjum á því að hita olíu á pönnu, kremja hvítlaukinn og leyfa hounum að mýkjast í stutta stund við vægan hita. 


Svo bætum við spínatinu við og hrærum í þangað til það lítur svona út.


Vá lyktin er alveg merkilega góð..

Svo leyfi ég spínatinu að kólna í smá stund svo það verði ekki svona blautt.


 Þá læt ég kotasælu ofan í skál ásamt spínatinu, basilíku, parmesanostinum og kjúklingnum og blanda vel saman, smakka svo til með salt og pipar.
Vá blandan er svo góð að ég gæti borðað hana eina og sér í kvöldmat..


Venjulega er ég með pastarör, mér finnst það er lang þæginlegast, en ég fann það ekki á Akureyri þannig ég sauð lasagne plötur og setti svo fyllinguna inn í og rúllaði saman. Mæli samt með rörunum, plöturnar eiga það til að festast saman eða rifna þegar þær eru orðnar svona mjúkar. 


Þá er sósan eftir, en hún er voðlega einföld. 

Við byrjum á því að hita olíu við vægan hita og kremja hvítlaukinn og setja á pönnuna og leyfa honum að mýkjast. Þar á eftir bætum við tómata-passata, niðursoðnum tómötum og basilíkunni við. Hræra vel og krydda með salti og pipar eftir smekk. Mér finnst voða gott að setja svo sósuna í blandara til að það verði engir tómatabitar í henni.



Þá er bara eftir að finna fínt mót, setja helminginn af sósunni í botninn, þá pastarörin og svo hinn helminginn ofan á og strá svo yfir ostinum. Þá er ekkert eftir nema að setja réttinn í ofninn við 180° í 25-35 mín :) 




Verði ykkur að góðu 

laugardagur, 26. apríl 2014

The Shawshank Redemption


Halldór kom færandi hendi úr búðinni í dag mér til mikillar ánægju.
Stórmyndin The Shawshank Redemption var í pokanum og hoppaði nánast af gleði. Við horfðum á myndina um páskana og ég er búin að vera með hana á heilanum síðan og bara varð að eignast hana.



 Stórleikararnin Morgan Freeman og Tim Robbins fara með aðalhlutverkin og myndin er á topp 250 bíómyndalistanum á IMDb síðunni sem þið getið skoðað hér. Hún er um mann sem er sakaður um morð á konunni sinni og manninum sem hún heldur framhjá honum með og í bíómyndinni sjáum við hvernig hann tekur á lífinu í Shawshank fangelsinu.

Hér er trailerinn á myndinni sem var gerð árið 1994. 


Þið sem eruð ekki búin að sjá hana, hættið að gera það sem þið eruð a gera núna, og horfið á hana! þið verðið svo sannarlega ekki svikin :) 

Heyrumst! 




föstudagur, 25. apríl 2014

Áskorun á sjálfan mig :)

Vá 700 síðuflettingar á fyrsta degi! það er alveg miklu meira en ég átti von á. Alveg frábærar viðtökur, takk fyrir að vera svona æðisleg :)



En úr því yfir í annað! Seinustu mánuði þá hef ég alveg verið með á heilanum að léttast og verða fínni og flottari og reyna að "fitta" inn í staðla samfélagsins, hef alltaf verið mega fúl yfir því að þessar og hinar gallabuxur séu ekki eins fínar á mér og þær voru einhverntímann fyrir löngu og björgunarhringurinn utan um mig orðinn það stór að hann myndi bjarga mér frá drukknun, sem hann reyndar myndi áreiðanlega gera. 
Ég endist aldrei í neinum íþróttum eða ræktinni því annað hvort fer ég alltof geyst af stað eða endist ekkert því mér finnst það ekki gaman. En afhverju erum við þá að pína okkur í ræktinni eða hvað sem það er ef okkur finnst það ekki skemmtilegt? 
Ég sérstaklega þegar ég byrja aftur á fullu í ræktinni þá er ég þvílíkt peppuð og ætla mér sko að missa 5 kíló í lok vikunnar. Þetta eru svo mega óraunhæfir staðlar, og ég enda alltaf á því að hætta og verða enn óánægðari með sjálfan mig. 

Ég fór sérstaklega að pæla í þessu eftir skóla í dag, nú þarf ég að hætta að vera með þetta á heilanum, að ég sé ekki nógu góð fyrir sjálfan mig er bara að veita mér vanlíðan. 
Ég skoraði á sjálfan mig að næstu 30 daga ætla ég að taka 30 mínútna göngutúr á hverjum einasta degi og sjá hvernig það virkar fyrir mig, líka svo æðislegt að fara út í göngutúr í æðislega veðrinu sem er búið að vera seinustu daga. 


Hættum að pína okkur í eitthvað sem veitir okkur vanlíðan, verum hamingjusöm og brosum framan í heiminn, verum ánægð með okkur sjálf, hvort sem við erum þykk eða grönn, elskum að hlaupa eða borða og njótum þess að vera til.  Ef við breytum hugarfarinu þá er allt hægt. 

Góða helgi og verið þið góð við hvort annað

Kristín Releena

fimmtudagur, 24. apríl 2014

Á ég?

Æi ég þori ekki, um hvað á ég að skrifa eiginlega? 

Ég er búin að velta þessu fyrir mér í þó nokkurn tíma hvort ég eigi að prufa og gera blogg og skrifa um það sem ég hef gaman! loksins lét ég verða af því :) 

Ég hef verið að skoða nokkur blogg undanfarið og þau hafa verið mér einhverskonar innblástur og þar á hún Guðrún Veiga stóran hlut en hún er algjörlega besti penni sem ég les! HÉR getið þið kíkt á bloggið hennar, hún kemur manni svo sannarlega alltaf í gott skap. 

Ég elska föt, snyrtivörur þótt ég hafi akkúrat enga hæfileika í  að farða mig ef ég reyni að setja á mig augnskugga þá gæti ég nú alveg eins hafa verið kýld í andlitið.Svo er það mitt lífsmarkmið en það er það að sjá allan heiminn, og já einn góðan veðurdag skal það sko verða dagurinn sem ég er búin að sjá allan heiminn svo elska ég að borða góðan mat, líka hugsa um mat..og elda mat ókei ég er algjör matarperri en þú veist hvað er lífið án góðs matar? 

Hér ætla ég mér að skrifa og pæla í áhugamálunum mínum og bara lífið og tilveruna og ég vona að einhverjir hafi gaman af. 

Gleðilegt sumar elskuleg og verið þið góð hvort við annað 

Kristín Releena :)